Föstudagur - sumarið..

Sumarið er tíminn..

Langt síðan ég bloggaði síðast..

Ég er búin að gera fullt í sumar :)

Búin að vinna alveg helling. 

Fara til útlanda..

Vera í fráhaldi..

Líða vel..

Detta úr fráhaldi..

Vera ósátt..

Byrja aftur í fráhaldi..

Vera sátt..

Missa mjög náinn frænda..

Vera rosalega sorgmædd og dofin..

_________________

Þetta er nú bara stiklað á stóru.

Ég átti gott sumarfrí og fór til Danmerkur í þrjár vikur.

Búin að vera heima núna í tæpar tvær vikur og byrjaði að vinna um leið og ég lenti liggur við.

Það er fínt að vera kominn aftur í rútínuna og njóta þess að eiga gott sumar hérna á Íslandinu.

Alveg ótrúlegt hvað það er búið að vera yndislegt veður.

Næst á dagskrá er fundur, búin að sakna þess að fara á fund og síðustu eina og hálfa viku hef ég ekki getað komið fundi á dagskrána.. ég veit að maður á að setja batann sinn í fyrsta sæti en þegar svona er ástatt vil ég hafa þetta svona :) og ef ég er sátt þá er allt í góðu..

Ekki meira í bili.

Takk fyrir mig :)

- Ella -


Mánudagur - tíminn líður..

Vá hvað tíminn er fljótur að líða.

Og vá hvað það er langt síðan ég bloggaði. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það er kominn næstum mánuður síðan ég bloggaði síðast.

Var að koma af fundi og auðvitað verð ég að blogga þá. Ég fyllist alltaf svo miklum móð þegar ég kem heim af fundi. Ég er ekki búin að fara á fundi síðustu tvær vikur vegna anna og það hefur alveg verið að segja til sín. Finnst svo gott að heyra ykkur hinar tala og alveg samsama mig við ótrúlega mikið af því sem ég heyri.

Ég finn það að þegar ég fer ekki á fundi verð ég latari við að leggja eitthvað í matinn minn og bara prógrammið yfir höfuð, vil helst bara gera eitthvað sem tekur bara smá stund en í gær tók ég mér taki og lagði sálu mína í matinn og mikið var hann nú góður. Svona vil ég gera gráu síðuna mína.. af öllu hjarta því mér þykir svo vænt um allt sem gráa síðan færir mér.

 Nú ætla ég mér að gera gráu síðuna eins og ég vil gera hana en ekki láta letina stjórna. Ég legg þetta í hendurna á æðri mætti því þá veit ég að allt verður í lagi.

 Takk fyrir að vera í fráhaldi með mér :)

 - Ella -


Sunnudagur - nóg að gera..

Alltaf nóg að gera á þessum bænum.

Fráhaldið ekki neinu í brjálæðislegu jafnvægi en ég held mig í fráhaldsgírnum því ég veit að dagurinn verður ekkert betri ef ég er í ofáti.

Eina sem ég veit fyrir víst að ef ég er í ofáti þá geri ég ekki neitt af því sem ég er búin að gera um helgina.

Búin að skoða hin fráhaldsbloggin óteljandi oft í dag, reyna að finna eitthvað til að halda mér í. Finnst svo gott að geta lesið fráhaldsblogg þegar ég er að dansa á þessari þunnu línu.

Annars líður mér bara vel. Er ekkert ósátt við að vera í fráhaldi þó jafnvægið sé ekki hið besta.

_____________________

Hættu að bíða eftir því að þú ljúkir námi, farir aftur í nám, að þú léttist um tíu kíló eða þyngist um annað eins, að þú gangir í hjónaband, fáir nýjan bíl og íbúð, að þú eignist barn, að börnin fari að heiman, að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna.

Hættu að bíða eftir föstudagskvöldinu, að fjárhagurinn komist í lag, að útborgunardagur launa renni upp, að vorið gangi í garð, að sumarið banki uppá, að snjórinn byrji að falla.

Minnstu þess að núna er stundin til að vera hamingjusamur. Hamingjan er ferðalag, ekki ákvörðunarstaður. Hættu að bíða sífellt eftir tilefni til að verða hamingjusamur, hættu að drepa tímann því tíminn er þitt eigið líf.

Lifðu lífinu og njóttu augnabliksins.

Þú átt bara þetta eina líf.

______________________

Finnst alltaf gott að lesa þetta, búin að hafa þetta í símanum mínum lengi og renni yfir þetta af og til. Maður á að njóta stað og stundar ekki bíða alltaf eftir morgundeginum :)

Með þessu ætla ég að kveðja í bili.

- Ella -


Mánudagur - fundir...

Mikið rosalega finnst mér gott að fara á fundi og þá sérstaklega mánudagsfundi. Það er eitthvað við mánudagsfundina. Hef prufað að fara á alla þrjá fundina og fór á þá alla í þrjár vikur þegar ég var að byrja í fráhaldi og finnst þeir allir æðislegir en ég bara get varla misst af mánudagsfundi. Það er kannski vegna þess að fyrsti fundurinn minn í þessu fráhaldi var á mánudegi og sú sem var að leiða fundinn talaði einhverveginn svo til mín og allt sem ég heyrði á þeim fundi átti svo við mig.

Ég var sum sé að koma heim af fundi. Ég finn það svo sterkt þegar ég sit fund hvað mig langar ekki til að taka fyrsta hömlulausa bitann. Auðvitað tek ég einn dag í einu og stundum bara mínútu í einu en þessi tilfinning er svo sterk á fundum. Ég vil vera í fráhaldi og tilheyra þessum frábæra hópi af fólki sem er í fráhaldi, fólk sem er eins og ég og skilur mig. Þess vegna finnst mér svo gott að fara á fundi og minna mig á þetta því stundum á ég það til að hugsa um það að ég ætli bara að vera í fráhaldi þangað til ég verð mjó. Því þegar ég verð mjó heldur minn bilaði haus að allt verði í lagi. Svona fer hausinn á mér stundum með mig, þvílíkt og annað eins.

En sem betur fer hugsa ég oftar rökrétt, læt ekki mjónuþrjáhyggjuna stjórna mér því mér líður svo vel í fráhaldi. Ég segi ekki að ég svífi alla daga um á einhverju skýi og að þetta sé ekkert mál eða jú, þetta er ekkert mál en inn á milli fæ ég brjálaða löngun í bara eitthvað. Það er ekkert eitthvað ákveðið kolvetni sem mig langar í heldur bara þessi vani og nartlöngun.

Og talandi um vana, ég hef svo mikinn tíma í að gera ekki neitt og bara vera ég. Hér áður var ég að skipuleggja hvað ég ætlaði að borða, að borða, líða illa eftir að hafa borðað eitthvað, ákveða hvenær ég ætlaði í megrun næst, hvernig megrunin ætti að vera, vera í megrun, ákveða að hætta í megrun. Hugurinn var alltaf í þessum pælingum, annað hvort var ég rosalega glöð því ég stóð mig svo vel í þessum eða hinum kúr eða rosalega pirruð og svekt af því ég var búin að klúðra enn einu megrunartrixinu.

Finnst rosalega gott að hafa svona bloggsíðu, hér get sagt allt það sem ég er að hugsa bæði á fundum og bara yfir höfuð. Ég er ekki ennþá komin á það stig að tala mikið á fundum, finnst æðislegt að hlusta á hinar sem vilja deila. Er alltaf í miklum pælingum og meðtek alveg rosalega mikið það sem hinir á fundunum eru að segja og svo ótrúlega margt sem ég á sameiginlegt með öllum á fundum en ég verð bara svo rosalega stressuð ef ég er búin að ákveða að segja eitthvað og þegar kemur að mér fer allt rugl og ég bulla eitthvað og tala svo hratt að ég man ekki einu sinni hvað ég sagði.

Ég er alveg rosalega þakklát og glöð að vera í fráhaldi.

Takk allar GSA píur fyrir að vera í fráhaldi með mér :)

- Ella -


Sunnudagur - fráhaldið mitt..

Alltaf gott að eiga dag í fráhaldi.

Finnst rosalega gott að hugsa bara um einn dag í einu í fráhaldi, ef ég hugsa of langt fram í tímann og fer til dæmis að hugsa um hvernig fráhaldið mitt muni gangi í sumarfríinu í sumar eða eitthvað álíka finnst mér það einhvernveginn svo ómögulegt.

Helgin er búin að vera mjög fín. Fór út að skemmta mér á föstudaginn og það var bara mjög fínt. Ég hef nú aldrei verið eitthvað sjúk í að fara niðrí bæ en það er gaman af og til. Var ekkert of lengi enda var svo brjálæðislega mikið af fólki á Nasa að það var engu lagi líkt. Allir í góðu stuði enda jafnast enginn á við Pál Óskar og það var mikið stappað á fótunum á manni á dansgólfinu og meira að segja fékk ég flösku í mig, sem betur fer sá ég í hvað stefndi og gat sett hendur fyrir höfuð. Meira hvað fólk verður bilað með víni.

Var í matarboði í kvöld, grill matur og þvílíkt gott. Gaman þegar fólk er farið að sjá smá mun á manni. Finnst það ekki leiðinlegt. Ég sé hann ekki sjálf en finn aðeins mun á einum buxum sem ég keypti mér í síðustu útlandaferð.

Nú tekur bara ný vika við, alltaf jafn mikið að gera í vinnunni. 

Hlakka til morgundagsins, fundur á morgun og svona. 

Þangað til næst..

- Ella -


Mánudagur - númer tvö..

Var að koma heim af virkilega góðum fundi.

Er mjög þakklát fyrir að hafa verið á fundi í kvöld, svo yndislegt fólk. 

Finnst svo merkilegt að vera í hópi með fólki sem skilur mig og ég skil það. Hópur af ólíku fólki sem hefur sama vandamál. Skrýtið að heyra þetta fólk tala um nákvæmlega sömu hluti og ég hef verið að baksa í. Svo gott að finna að ég er ekki sú eina klikkaða.

Að finna að ég er ekki sú eina sem er ekki "venjuleg".

Er svo minnistætt atvik sem átti sér stað rétt áður en ég fór í fráhald núna. Var í saumaklúbb og auðvitað var boðið upp á hlaðborð af kolvetnum. Við fórum allar og fengum okkur á diskinn og svo voru allar búnar með sinn skammt og voru bara að spjalla og eitthvað. Engin á leiðinni að fara aftur og hugurinn á mér bara stoppaði ekki, mig vantaði svo að fara aftur og gúffa á diskinn einhverjum kolvetnum og ég bara gat ekki skilið að þær sætu bara og voru að spjalla. Auðvitað var gaman að spjalla en ég hugsaði bara um hvenær þær ætluðu að fara fá sér aftur, því ég vildi nú ekki vera sú eina sem færi ferð númer tvö. Já og þær töluðum um að þetta væri of sætt, það hef ég til dæmis aldrei skilið. Of sætt hvað, það er ekki í minni orðabók.

Og svo þessi stoppari, hvað er það? Var að ræða við einhvern um daginn um þessa magaminnkunaraðgerð. Ég hugsaði stundum um hvort það gæti hjálpað mér, hvort ég ætti að borða mig upp í það að ég væri kandídat í svona aðgerð því ég var ekki nógu þung. En svo hef ég verið að pæla upp á síðkastið. Svona aðgerð myndi aldrei hjálpa mér því ég kann ekki að stoppa. Ég veit ekki hvað það er að stoppa, veit ekki hvenær ég er búin að fá nóg. Ég borða bara og borða og tveir bitar myndu aldrei nægja mér þó svo að ég væri orðin södd. Það er nefnilega talað um að maður þarf bara að borða nokkra bita og þá verður maður saddur. Það hjálpar mér ekki neitt, tveir bitar gera ekkert fyrir mig. Kannski tvöhundruð tuttugu og tveir en aldrei tveir. Ég er veik í höfðinu og aðgerð sem minnkar magann á mér hjálpar mér ekki neitt. Þess vegna hjálpar vigtin mér, hún segir mér nákvæmlega hversu mikið ég þarf.

Ég er samt ekkert að setja út á magaaðgerðir. Finnst bara gott að ég skildi að þessi leið hjálpar mér ekki.

En já, ég er þakklát fyrir að hafa fundið mína leið.

Einn dag í einu, eina mínútu í einu og stundum eina sekúndu í einu.

Takk fyrir mig.

 - Ella -  


Mánudagur - fyrsta blogg á blog.is

Loksins fær þessi bloggsíða sem ég stofnaði árið 2006 hlutverk.

Áðan fékk ég svo einhverja löngun til að blogga um fráhaldið mitt.

Ég ákvað svo að byrja að blogga, afhverju ekki :) 

Ég er með aðra bloggsíðu þar sem ég hef bloggað lengi og hef gaman af. Hef aðeins verið að blogga um fráhaldið mitt á hinni síðunni minni en það eru ekki margir sem lesa þá síðu í sömu sporum og ég og skilja ekki alveg hvað klikkaða ég er að skrifa um. Ég skammast mín ekkert fyrir fráhaldið mitt og er ekki að fela það, það er ekki þess vegna sem ég vel að hafa tvær aðskildar bloggsíður.

Finnst rosalega gott að lesa blogg hjá öðrum í sömu sporum og ég og held að það sé gott fyrir mig að skrifa niður ýmsilegt sem poppar upp í hugann.

---------------

Hvítasunnuhelgin að renna sitt skeið og ég í fráhaldi og rosalega þakklát fyrir það.

Helgin er samt búin að vera nett erfið skal ég ykkur segja.

Fór í ferðalag með kærastanum sem var yndislegt en ég var ekkert rosalega sátt við að vera í fráhaldi. Langaði helst bara að taka gamla pakkann á þetta, kaupa inn heila innkaupakerru af einhverjum óþverra og bara "detta í það." Laugardagurinn var svolítið erfiður, en ég tók fráhaldið fram yfir ofátið þó svo að fyrsti hömlulausi bitinn hefði verið skammt undan. Gærdagurinn var svo enn verri, ég var svo rosalega á leiðinni í hömlulaust ofát að það er sorglegt að hugsa til þess. Var ógeðslega pirruð út í kærastann að styðja mig ekki í því að fá mér kolvetni, fannst hann alveg hræðilega leiðinlegur og ósanngjarn að styðja þetta "fáránlega" fráhald mitt.

Ég var komin í þær hugsanir að ég svindlaði bara í dag og svo byrjaði ég bara aftur á morgun, ekkert mál, þó svo að ég viti manna best að ég byrja ekkert aftur á morgun. Einn dagur er ekkert nóg fyrir mig. Einn biti er ekki nóg fyrir mig.

En fráhaldið fékk að vera í fyrsta sæti eina sekúndu í einu þó svo að ég væri ógeðslega ósátt við það og ég borðaði þriðju vigtuðu og mældu máltíðina mína í gærkvöldi ekkert of sátt.

Vaknaði svo í morgun gríðarlega þakklát fyrir að eiga þrítugasta og níunda daginn minn í fráhaldi. Þakklát fyrir að eiga kærasta sem styður mig og mitt fráhald 100%.

Vá hvað ég var glöð að ég var ekki við stjórnvölinn í gær. Ég reyndi að hlusta á minn æðri mátt og hvað væri rétt fyrir mig. Í dag veit ég hefði ekki valið rétt fyrir mig ef ég hefði fengið að velja í gær, ég setti þetta í hendurnar á æðri mætti og er á réttum stað í dag. Finn fyrir ró í huganum, ró sem var ekki til staðar á þessum tíma í gær.

Í dag er ég búin að borða tvær vigtaðar og mældar máltíðir og hlakka bara til að vigta og mæla þá þriðju. Ætla svo að reyna að fara á fund, því það er mánudagur og ég elska að fara á mánudagsfundi.

Ætla að eiga það sem eftir er af þessum degi í fráhaldi og svo einn dag í einu, eina mínútu í einu eða jafn vel eina sekúndu í einu ef þess þarf.

Takk fyrir mig.

- Ella -


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband