12.5.2008 | 23:29
Mánudagur - númer tvö..
Var að koma heim af virkilega góðum fundi.
Er mjög þakklát fyrir að hafa verið á fundi í kvöld, svo yndislegt fólk.
Finnst svo merkilegt að vera í hópi með fólki sem skilur mig og ég skil það. Hópur af ólíku fólki sem hefur sama vandamál. Skrýtið að heyra þetta fólk tala um nákvæmlega sömu hluti og ég hef verið að baksa í. Svo gott að finna að ég er ekki sú eina klikkaða.
Að finna að ég er ekki sú eina sem er ekki "venjuleg".
Er svo minnistætt atvik sem átti sér stað rétt áður en ég fór í fráhald núna. Var í saumaklúbb og auðvitað var boðið upp á hlaðborð af kolvetnum. Við fórum allar og fengum okkur á diskinn og svo voru allar búnar með sinn skammt og voru bara að spjalla og eitthvað. Engin á leiðinni að fara aftur og hugurinn á mér bara stoppaði ekki, mig vantaði svo að fara aftur og gúffa á diskinn einhverjum kolvetnum og ég bara gat ekki skilið að þær sætu bara og voru að spjalla. Auðvitað var gaman að spjalla en ég hugsaði bara um hvenær þær ætluðu að fara fá sér aftur, því ég vildi nú ekki vera sú eina sem færi ferð númer tvö. Já og þær töluðum um að þetta væri of sætt, það hef ég til dæmis aldrei skilið. Of sætt hvað, það er ekki í minni orðabók.
Og svo þessi stoppari, hvað er það? Var að ræða við einhvern um daginn um þessa magaminnkunaraðgerð. Ég hugsaði stundum um hvort það gæti hjálpað mér, hvort ég ætti að borða mig upp í það að ég væri kandídat í svona aðgerð því ég var ekki nógu þung. En svo hef ég verið að pæla upp á síðkastið. Svona aðgerð myndi aldrei hjálpa mér því ég kann ekki að stoppa. Ég veit ekki hvað það er að stoppa, veit ekki hvenær ég er búin að fá nóg. Ég borða bara og borða og tveir bitar myndu aldrei nægja mér þó svo að ég væri orðin södd. Það er nefnilega talað um að maður þarf bara að borða nokkra bita og þá verður maður saddur. Það hjálpar mér ekki neitt, tveir bitar gera ekkert fyrir mig. Kannski tvöhundruð tuttugu og tveir en aldrei tveir. Ég er veik í höfðinu og aðgerð sem minnkar magann á mér hjálpar mér ekki neitt. Þess vegna hjálpar vigtin mér, hún segir mér nákvæmlega hversu mikið ég þarf.
Ég er samt ekkert að setja út á magaaðgerðir. Finnst bara gott að ég skildi að þessi leið hjálpar mér ekki.
En já, ég er þakklát fyrir að hafa fundið mína leið.
Einn dag í einu, eina mínútu í einu og stundum eina sekúndu í einu.
Takk fyrir mig.
- Ella -
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.5.2008 | 18:08
Mánudagur - fyrsta blogg á blog.is
Loksins fær þessi bloggsíða sem ég stofnaði árið 2006 hlutverk.
Áðan fékk ég svo einhverja löngun til að blogga um fráhaldið mitt.
Ég ákvað svo að byrja að blogga, afhverju ekki :)
Ég er með aðra bloggsíðu þar sem ég hef bloggað lengi og hef gaman af. Hef aðeins verið að blogga um fráhaldið mitt á hinni síðunni minni en það eru ekki margir sem lesa þá síðu í sömu sporum og ég og skilja ekki alveg hvað klikkaða ég er að skrifa um. Ég skammast mín ekkert fyrir fráhaldið mitt og er ekki að fela það, það er ekki þess vegna sem ég vel að hafa tvær aðskildar bloggsíður.
Finnst rosalega gott að lesa blogg hjá öðrum í sömu sporum og ég og held að það sé gott fyrir mig að skrifa niður ýmsilegt sem poppar upp í hugann.
---------------
Hvítasunnuhelgin að renna sitt skeið og ég í fráhaldi og rosalega þakklát fyrir það.
Helgin er samt búin að vera nett erfið skal ég ykkur segja.
Fór í ferðalag með kærastanum sem var yndislegt en ég var ekkert rosalega sátt við að vera í fráhaldi. Langaði helst bara að taka gamla pakkann á þetta, kaupa inn heila innkaupakerru af einhverjum óþverra og bara "detta í það." Laugardagurinn var svolítið erfiður, en ég tók fráhaldið fram yfir ofátið þó svo að fyrsti hömlulausi bitinn hefði verið skammt undan. Gærdagurinn var svo enn verri, ég var svo rosalega á leiðinni í hömlulaust ofát að það er sorglegt að hugsa til þess. Var ógeðslega pirruð út í kærastann að styðja mig ekki í því að fá mér kolvetni, fannst hann alveg hræðilega leiðinlegur og ósanngjarn að styðja þetta "fáránlega" fráhald mitt.
Ég var komin í þær hugsanir að ég svindlaði bara í dag og svo byrjaði ég bara aftur á morgun, ekkert mál, þó svo að ég viti manna best að ég byrja ekkert aftur á morgun. Einn dagur er ekkert nóg fyrir mig. Einn biti er ekki nóg fyrir mig.
En fráhaldið fékk að vera í fyrsta sæti eina sekúndu í einu þó svo að ég væri ógeðslega ósátt við það og ég borðaði þriðju vigtuðu og mældu máltíðina mína í gærkvöldi ekkert of sátt.
Vaknaði svo í morgun gríðarlega þakklát fyrir að eiga þrítugasta og níunda daginn minn í fráhaldi. Þakklát fyrir að eiga kærasta sem styður mig og mitt fráhald 100%.
Vá hvað ég var glöð að ég var ekki við stjórnvölinn í gær. Ég reyndi að hlusta á minn æðri mátt og hvað væri rétt fyrir mig. Í dag veit ég hefði ekki valið rétt fyrir mig ef ég hefði fengið að velja í gær, ég setti þetta í hendurnar á æðri mætti og er á réttum stað í dag. Finn fyrir ró í huganum, ró sem var ekki til staðar á þessum tíma í gær.
Í dag er ég búin að borða tvær vigtaðar og mældar máltíðir og hlakka bara til að vigta og mæla þá þriðju. Ætla svo að reyna að fara á fund, því það er mánudagur og ég elska að fara á mánudagsfundi.
Ætla að eiga það sem eftir er af þessum degi í fráhaldi og svo einn dag í einu, eina mínútu í einu eða jafn vel eina sekúndu í einu ef þess þarf.
Takk fyrir mig.
- Ella -
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)